Færsluflokkur: Bloggar
17.11.2006 | 16:16
Lima
Jæja, þá erum við komin til Lima í Perú, sem er síðasti viðkomustaður okkar áður en við skilum farþegunum til Miami. Páskaeyja var lítil og sæt og allt mjög þægilegt, en Lima er stórborg með um 8 miljónir íbúa. Dálítið annað andrúmsloft.
Farþegarnir héldu í morgun áfram upp í fjöllin að skoða Inkaborgir en við erum föst hérna í fjórar nætur. Seinnipartinn í dag ætlum við að reyna að skoða okkur um, en planið er að skoða Gullsafnið, miðbæinn og Miraflores, sem er fínasti parturinn af staðnum, næstu daga.
Í gærkvöldi bauð hópurinn okkur í mat í ógurlega fínu safni hér í borginni. Fyrst fórum við í skoðunarferð um safnið, sem var mjög skemmtileg og svo var borðað úti og horft á perúiska dansa.
Í dag hef ég svo setið fyrir utan hótelið og safnað sólskini og hita í poka til að koma með heim handa Hildi! :)
Sendi myndir í kvöld eða á morgun.
Kveðja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.11.2006 | 22:57
Á Páskeyju
Komum hingað í gærkvöldi og í morgun var farið í skoðunarferð um eyjuna. Hún er ekki stærri en svo að við vorum ekki nema fjóra tíma að fara um mestan hluta hennar. Eyjan heitir á frummálinu Rapa Nui (Stór steinn) eða Te Pito Te Henua (Nafli alheimsins) eða Mata ki te rangi (Augað sem fylgist með himninum) en var kölluð Páskaeyja því hún fannst á páskadag 1722.
Stytturnar, sem eru 250 um hana alla gera það að verkum að hingað flykkist fólk, nefnast Moai. Það er enn hulin ráðgáta hvernig styttunum var komið fyrir en efnið í þær allar var tekið úr stærsta fjallinu hérna. Þær voru gerðar á 13. öld. Páskaeyja er í dag stærsta útisafn í heimi og megnið af eyjunni er þjóðgarður.
Myndirnar tala sínu máli í albúmi sem nefnist Páskaeyja.
Á morgun liggur svo leiðin til Lima í Perú sem verður síðast viðkomustaðurinn í ferðinni áður en farþegunum verður skilað til Miami.Kveðja heimBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2006 | 14:21
Punta Arenas til Concepcion
Eftir að hafa komið til Concepcion í Chile er ljóst að Punta Arenas er frábær staður og við sem héldum að hann væri alveg vonlaus!
Í Punta fórum við í stutta skoðunarferð á mörgæsaslóðir og sáum mörgæsir af Magallanes tegund sem eru auðþekktar á því að þær eru með tvær hvítar rendur á brjóstinu. Það sem kom mest á óvart var að þær eru með hreiður eða holur í graslendi. Tvisvar á dag fara þær niður að sjó til að fá sér næringu og við komum þangað einmitt þegar þær voru að seinnipartssnæðingi.
Punta Arenas var mikil verslunarborg þangað til Panamaskurðurinn var opnaður, en öll skipaumferð lá í gegnum Magellan sundið sem bærinn stendur við. Í dag byggist afkoman fyrst og fremst á sauðfjárbúskap og lítils háttar olíuframleiðslu. Þarna búa 100 þúsund manns sem hafa ekki mikið við að vera.
Í Concepcion búa hins vegar um 200 þúsund manns, þetta er næst stærsta borg Chíle og hér er bókstaflega ekkert að gera eða sjá. Bærinn hrundi í jarðskjálftum 1939 og 1960 þannig að hér eru engar gamlar byggingar. Farþegarnir okkar fóru beint úr vélinni okkar og upp í ævagamla Boeing 737 þegar við lentum hérna og flugu upp í fjöllin í bæ sem heitir Villaricca. Þar er víst mjög fallegt.
En að vanda tala myndirnar sínu máli og er að finna í albúmi sem heitir Punta Arenas.
Kveðja heim
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.11.2006 | 22:56
Til Ushuaia og Punta Arenas
Fórum í gær, þann 8. frá Buenos Aires of flugum með farþegana til Ushuaia, sem er við Magellan sundið á 54 gráðum suður. Þar fóru þeir af og um borð í skip sem siglir með þá næstu daga. Við héldum svo áfram ferðinni til Punta Arenas og munum hitta farþegana hér.
Landslagið á þessu svæði minnir á Ísland og fjörðurinn þar sem Ushuaia stendur er eins og Eyjafjörður á sterum. Punta Arenas minnir hins vegar svolítið á lítið þorp heima, þótt hér búi um 100.000 manns. Veðrið er meira að segja dálítið líkt veðrinu heima, í gær var hífandi rok og rigning, en í dag er það þokkalegt og sæmilega hlýtt, en ekkert voðalega. Lífið virðist snúast mest um mörgæsir og það eru einmitt þær sem við ætlum að reyna að sjá á morgun.
Myndir úr mörgæsaferðinni fylgja á morgun, en núna eru komin tvö ný albúm: Buenos Aires og Til Ushuaia.
Bestu kveðjur heim
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.11.2006 | 19:52
Igazu fossarnir
Fórum í gær frá Ríó áleiðis til Buenos Aires með viðkomu við Igazu fossana. Þeir eru rúmlega 200 talsins og myndast í miklu gili þar sem árnar Igazu og Pyrana mætast á landamærum Brasilíu, Argentínu og Paraguay. Ég hafði áður séð fossana frá Paraguay.
Þegar við komum að fossunum fengum við að fara í útsýnisflug yfir þá, sem vakti mikla lukku. Veðrið var mjög gott, sólarlaust, ca. 25 stiga hiti og mikill raki. Þegar við vorum búin að gera vélina klára sótti okkur rúta og okkur var ekið að fossunum og svo fórum við í rúmlega klukkutíma göngutúr á svæðinu og enduðum í þvílíku hádegishlaðborði að ég var ekki orðinn svangur enn þegar ég fékk morgunverð í morgun!
Svo lá leiðin til Buenos Aires, þar sem við stönsum í þrjár nætur. Flugveðrið á leiðinni var ömurlegt, stanslaus ókyrrð, oft mjög mikil og ísing og síðan rigning. Borgin tók á móti okkur með skýfalli og það var eins og lent væri í sundlaug en ekki á flugbraut þegar við lentum. Við vorum um þrjá tíma að græja vélina fyrir næsta legg og orðin ansi lúin þegar við komumst á hótelið.
Á morgun fylgir skýrsla frá Buenos Aires, en í kvöld verður okkur boðið á Tangó sýningu og á morgun förum við í bæjarferð.
Eins og áður tala myndirnar sínu máli og þær má finna í myndeaalbúmi sem nefnist Igazu fossarnir!
Kveðja heim!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.11.2006 | 01:29
Ríó - 2. dagur
Fórum að kíkja á Krist í morgun, þar sem hann stendur upp á hæsta klettinum í Ríó, Corcovado, 710 metra háum. Sjálf styttan er 30 metra há með útbreiddan 28 metra faðm.
Kristur kallinn var feiminn við víkingana að norðan og sveipaði sig skýjahulu þannig að nánast ekkert sást í hann, þótt við stæðum við fótstallinn. En feimnin rann af honum þegar við fórum aftur, því þá létti til andartak og þarna trónaði hann eins og hani á haug, þrælflottur, en hvarf svo aftur í skýin.
Ókum í gegnum fátækrahverfi, Favella, þar mátti aðeins aka eina götu og bannað að stoppa.
Síðan tók við hápunktur dagsins! Brasilískur fótboltaleikur í 1. deild milli heimaliðsins Flamengo og aðkomumannanna Etlico de Pharana. Leikurinn fór fram á Macrana leikvanginum, sem reyndist ekki taka 60.000 manns í sæti heldur 140.000 manns og er sá stærsti í heimi er mér sagt. Áður fyrr gátu setið þarna 200.000 manns, en hluti af stúkunni hrundi fyrir einhverjum árum eða áratugum og þá var hún minnkuð.
Áhorfendur voru ca 25 - 35 þúsund og mikil stemmning, sérstaklega þegar Flamengo skoraði eina mark leiksins.
En myndir dagsins sem bætt hefur verið í Ríó myndaalbúmið segja allt sem segja þarf!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.11.2006 | 01:50
Ferðalag í kláfi
Fórum í dag upp á Pá de Acúcar, eða Sykurhleifinn, eða eitthvað svoleiðis. Þetta er klettadrangur sem farið er uppá með kláfi. Því miður var meira og minna þoka þarna efst uppi í um 400 m hæð. Farið var með tveimur kláfum, fyrst upp á Morro da Urca og síðan áfram upp á topp. Mjög skemmtilegt ferðalag. Myndirnar tala sínu máli, smellið á myndaalbúm sem heitir Ríó de Janeiro.
Á morgun ætlum við að kíkja á einkennismerki Ríó, Jesústyttuna og belíf it or not, við ætlum nokkrir að fara á fótboltaleik í fyrtu deild seinnipartinn á stærsta fótboltaleikvanginn hér, sem tekur um 60 þúsund manns. Skýrsla fylgir með við fyrsta tækifæri!
Kveðja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2006 | 15:57
Frá Panama til Ríó
Fórum í gær frá Panama til Rio De Janeiro. Hlutirnir gengu frekar seint fyrir sig og til að kóróna allt þurftum við að hætta við flugtak þegar vélin var komin á 200 km hraða, af því að við náðum ekki fullu afli á annan hreyfilinn - tölvan sem stýrir aflinu var greinilega enn í fríi í Panama! Þetta var í annað skiptið á ferlinum - og í fyrsta skipti sem flugstjóri - sem ég þurfti að hætta við flugtak. Allir rólegir og allt gekk vel. Flugvirkinn bankaði í kassa og box og hrærði í vírum sem dugði til þess að við komumst af stað.
Flugtímínn var 6:30 og í 3 klst flugum við yfir regnskógum Amazon, ekkert nema tré og ár, ótrúlegt, eins og að fljúga yfir grænu úthafi. Lentum svo í Ríó í rigningu seint í gærkvöldi.
Erum núna að fara af stað í aðra af tveimur skoðunarferðum. Set vonandi inn myndir og meiri texta í kvöld.
Hópurinn er einnig með bloggsíðu, þar sem ferðinni eru gerð betri skil. Slóðin er:
suduramerika.bloggar.is
Kveðja heim
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2006 | 23:01
Á einkaþotu til S-Ameríku, Panama City
Þá er ferðin loksins hafin með 80 Ameríkana og Kanadamenn, sem hafa valið að ferðast með einkaþotu um S-Ameríku. "Einkaþotan er B-757 með lúxussætum fyrir þessa farþega og 13 manna áhöfn; 3 flugmenn, 1 flugvirki, tveir kokkar og 7 flugfreyjur/flugþjónn.
Við lögðum af stað 30. október og ferjuðum flugvélina til Miami, þar sem farþegarnir biðu okkar að morgni þess 31. Það er ekki að sjá á þessu fólki að það syndi í peningum, ósköp venjulegt fólk, flest allt vel við aldur.
Allt gekk vel og við lögðum af stað nokkrum mínútum á undan áætlun til fyrsta áfangastaðar, Panama City í Panama. Panama tók á móti okkur með grenjandi rigningu í 25 stiga hita, en strax í dag, 1. nóvember, var komin bongóblíða, þótt enn sé rigningatíminn. Hér bíðum við í tvær nætur eftir farþegunum og notuðum tækifærið í morgun og fórum í skoðunarferð að Panama skipaskurðinum og svo í bæjarferð. Hvort tveggja mjög skemmtilegt. Skurðurinn er náttúrulega algjört þrekvirki og heimamenn stoltir af honum. Á næstunni verður hafist handa við að stækka hann, því hann getur ekki lengur tekið við vaxandi umferð.
Ég hafði ekki mótað neina sérstaka skoðun á Panama City áður en ég kom, en borgin kom á óvart. MJÖG mikill uppgangur, skýjakljúfar í byggingu út um allt og borgin mjög hreinleg. Uppgangurinn heima er hálgert djók miðað við þensluna hérna.
Í fyrramálið, 2. nóvember, höldum við svo áfram til Ríó De Janeiro og stoppum þar í þrjár nætur. Erfið vinna! En kíkið á myndirnar frá Panama!
Bestu kveðjur, heim!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.4.2006 | 17:11
Fyrsta bloggfærsla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Bloggsíða Rabba
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar